Að opna á samtal um ofbeldi gegn maka við geranda

Ofbeldi af öllu tagi þrífst best í þögn. Því er fyrsta og mikilvægasta skrefið að rjúfa þögnina til að breytingar geti átt sér stað. Góð leið til að bera kennsl á og ræða um ofbeldi er að skoða afleiðingarnar. Hjá Heimilisfriði skilgreinum við ofbeldi vítt og tölum um það sem alla hegðun sem beinist að annarri manneskju þar sem þú með atferli þínu skaðar, meiðir, hræðir eða særir og/eða færð viðkomandi til að gera eitthvað gegn eigin vilja eða hætta að gera það sem viðkomandi vill.
Hér á síðunni má nálgast lista með dæmum um mismunandi ofbeldishegðun heimilisfridur.is/hvaderofbeldi/ listinn getur verið hjálplegur til að átta sig betur á hvers eðlis málið er.

Það getur verið erfitt að opna á umræðu um ofbeldi við geranda en þú getur skipt sköpum

Mörg sem beita maka sinn ofbeldi hafa sjálf alist upp við áföll eða ofbeldi. Og flest hafa löngun til að brjóta það mynstur sem þau sjálf ólust upp við.

Hins vegar getur þessi reynsla líka þýtt að ofbeldið virðist sem eðlileg samskipti eða hegðun og það getur staðið í vegi fyrir því að viðkomandi leiti aðstoðar. Sem utanaðkomandi, fjölskylda eða vinur getur þú skipt miklu máli með því að ná til og hjálpa viðkomandi að átta sig á eigin gjörðum og breyta hegðun sinni.

Jafnvel þó þú komist að því að ekki hafi verið brugðist við ábendingum þínum hefur það aldrei verið til einskis. Það er mjög líklegt að þú hafir stuðlað að því að gerandinn er kominn einu skrefi nær því að stöðva ofbeldishegðunina.

Þegar þú ert í fjölskyldu með viðkomandi, vinur eða samstarfsfélagi

  • Reyndu að skapa öruggt umhverfi fyrir samtal, t.d. með göngutúr eða yfir kaffibolla. Þú getur byrjað á almennara samtali um hvernig gengur.
  • Lýstu áhyggjum þínum og að þú viljir hjálpa. Mundu að ofbeldishegðun er mjög alvarlegt vandamál og getur verið refsivert athæfi.
  • Segðu viðkomandi að það sé hægt að fá meðferð við ofbeldishegðun og öðlast þannig líf án endurtekinna átaka eða ofbeldis.
  • Ef það eru börn í fjölskyldunni má útskýra að heimilisofbeldi bitni alltaf á börnunum. Jafnvel þó að fullorðna fólkið haldi að börnin viti ekki hvað er að gerast.
  • Sýndu þolinmæði. Einstaklingurinn þarf oft tíma til að hugsa og er ekki alltaf tilbúinn að þiggja hjálpina strax.
  • Bentu viðkomandi á Heimilisfrið, https://heimilisfridur.is Þar er hægt að panta viðtal hjá sálfræðingi Heimilisfriðar til að fá aðstoð við að skoða málin. Á síðunni má einnig finna lista yfir mismunandi ofbeldishegðun.
  • Ef þú óttast að einhver sé í hættu vegna ofbeldisins verður þú hins vegar að bregðast skjótt við með því að hringja í 112, hafa samband við lögreglu eða annað viðeigandi yfirvald.

Þegar þú þekkir viðkomandi ekki vel

  • Það getur verið erfitt að ná til einstaklinga sem maður þekkir ekki mjög vel þegar um svo alvarlegt málefni er að ræða.
  • Reyndu að finna tíma og stað þar sem þú getur talað ótruflað við þann sem þú telur að beiti ofbeldi.
  • Útskýrðu hverju þú hefur tekið eftir. Sýndu að þú hafir áhyggjur og að þú sért meðvituð um að parið eigi í erfiðleikum eða átökum. Forðastu að vísa til átaka þeirra sem ofbeldis, þar sem parið skynjar það ekki endilega þannig.
  • Segðu viðkomandi að það sé hægt að fá meðferð við ofbeldishegðun og öðlast þannig líf án endurtekinna átaka eða ofbeldis.
  • Bentu viðkomandi á Heimilisfrið, https://heimilisfridur.is Þar er hægt að panta viðtal hjá sálfræðingi Heimilisfriðar til að fá aðstoð við að skoða málin. Á síðunni má einnig finna lista yfir mismunandi ofbeldishegðun.
  • Ef þú óttast að einhver sé í hættu vegna ofbeldisins verður þú hins vegar að bregðast skjótt við með því að hringja í 112, hafa samband við lögreglu eða annað viðeigandi yfirvald.



(leiðbeiningar frá https://stoppartnervold.nu/kender-du-en-der-udover-vold/ þýddar og staðfærðar af Heimilisfriði í janúar 2024)

Scroll to Top