Um Heimilisfrið
Á vordögum 2006 var á vegum Félagsmálaráðuneytisins endurvakið meðferðartilboð fyrir karla sem beita heimilisofbeldi, „Karlar til ábyrgðar“ (KTÁ). Þetta úrræði var áður í gangi á árunum 1998-2002, þá sem tímabundið tilraunaverkefni sem lagðist af vegna skorts á fjárframlögum. Það eru sömu aðilar og áður sem séð hafa um meðferðina, sálfræðingarnir Einar Gylfi Jónsson og Andrés Ragnarsson. Nú hefur Einar Gylfi hins vegar látið af störfum en Mjöll Jónsdóttir sálfræðingur bæst í hópinn.
Þungamiðja meðferðarinnar er að taka ábyrgð á eigin ofbeldishegðun og í framhaldinu að þróa leiðir til að takast á uppbyggilegan hátt við það sem upp kemur í samskiptum við maka.
Eins og nafnið bendir til var meðferðin í upphafi fyrst og fremst miðuð við karla sem beittu ofbeldi í nánum samböndum. Síðar var það þó ljóst að öll kyn geta beitt öll kyn ofbeldi. Hjá Heimilisfriði er því tekið á móti öllum þeim sem telja sig þurfa aðstoð til þess að hætta að beita maka sinn ofbeldi. Þessar útvíkkuðu forsendur leiddu til þess að nafnið, sem átti svo ágætlega við í upphafi, var orðið villandi. Því var ákveðið að leggja til hliðar hið upprunalega nafn og valið annað sem hefur breiðari skírskotun: Heimilisfriður, með undirtitlinum „Meðferðar- og þekkingarmiðstöð um ofbeldi í nánum samböndum.“ Með þessum undirtitli er vísað til þess að auk þess að bjóða gerendum og þolendum ofbeldis í nánum sambönd upp á meðferð er Heimilisfriði ætlað að miðla fræðslu og þjálfun varðandi ofbeldi í nánum samböndum og afleiðingar þess til fagfólks og almennings. Þessu hlutverki sinna starfsmenn Heimilisfriðar ötullega og hafa sinnt fræðslu um allt land fyrir hina ýmsu hópa.
Allir sem leita til Heimilisfriðar byrja í einstaklingsviðtölum.
Til að byrja með er skjólstæðingnum boðið upp á allt að 4 greiningarviðtöl, þar sem vandinn er metinn og lagt á ráðin um framhaldið. Að því loknu getur verið um að ræða áframhaldandi einstaklingsviðtöl eða hópmeðferð ef við á.
Lögð er áhersla á að viðkomandi þiggi aðstoðina af fúsum og frjálsum vilja og sjái sjálfur um að panta sér viðtal. Undantekning á þessari meginreglu er t.d. þegar barnaverndaraðilar, félagsþjónusta eða lögregla vísa málum til okkar.
Ekki er boðið upp á hjónameðferð, en mökum er alltaf boðið upp á 2 viðtöl við upphaf og lok meðferðar til að meta öryggi maka og barna. Að auki er pörum stundum vísað í parameðferð að einstaklingsmeðferð lokinni.
Monika Skarphéðinsdóttir sálfræðingur hefur sinnt makaviðtölum síðan 2011.
Meðferðarúrræði á Norðurlandi: Í desember 2011 var sett á fót meðferðarúrræði á vegum Heimilisfriðar á Akureyri, sem þjónar Norðurlandi. Kristján Már Magnússon sálfræðingur annast verkefnið fyrir hönd Heimilisfriðar. Hægt er að hafa beint samband við Kristján í síma 460 9500.
Starfsþjálfun og ráðgjöf: Frá upphafi hefur Heimilisfriður/ KTÁ sótt sér fyrirmynd af starfseminni til Alternativ til Vold í Noregi og er nú meðlimur að regnhlífarsamtökum undir forystu ATV, þar sem fyrir eru meðferðarstöðvar frá Svíþjóð, Danmörku og víðar.
Allt starfsfólk Heimilisfriðar fer í gegnum sérhæfða þjálfun og sinnir endurmenntun af ábyrgð og áhuga.