Um okkur  

Hjá Heimilisfriði bjóðum við sálfræðimeðferð á viðráðanlegu verði, fyrir þau sem eiga erfitt með að stjórna skapi sínu og skaða þá sem þau elska, jafnvel þótt þau vilji það ekki. 


Heimilisfriður er meðferðar- og þekkingarmiðstöð um ofbeldi í nánum samböndum, Heimilisfriður er staðsettur í Reykjavík en býður einnig fjarviðtöl og þjónar þannig öllu landinu. 


Heimilisfriður er meðferðarúrræði fyrir einstaklinga sem beita eða hafa beitt ofbeldi í nánum samböndum. Þungamiðja meðferðarinnar snýst um að taka ábyrgð á eigin ofbeldishegðun og þróa leiðir til að takast uppbyggilega á við það sem upp kemur í samskiptum við maka. 


Heimilisfriður tekur á móti öllum sem telja sig þurfa aðstoð til þess að hætta að beita maka sinn ofbeldi. Hjá Heimilisfriði er lögð rík áhersla á að ofbeldishegðun er aldrei ásættanleg, en þar er öllum skjólstæðingum mætt með mikilli vinsemd og virðingu.  


Hjá Heimilisfriði er lögð áhersla á að viðkomandi þiggi aðstoðina af fúsum og frjálsum vilja og sjái sjálfur um að panta sér viðtal. Undantekning á þessari meginreglu er t.d. þegar barnaverndaraðilar, félagsþjónusta eða lögregla vísa málum til okkar. 


Heimilisfriður tilheyrir hópi meðferðarúrræða á norðurlöndunum sem byggja á starfsemi Alternativ til Vold (ATV) í Noregi. Unnið er náið með ATV og starfsfólk Heimilisfriðar fer í gegnum sérhæfða þjálfun og sinnir endurmenntun. 


Uppruna Heimilisfriðar má rekja til þess er Félagsmálaráðuneytið á vordögum 2006 endurvakti meðferðartilboð fyrir karla sem beita heimilisofbeldi, „Karlar til ábyrgðar“ (KTÁ). Þetta úrræði var áður í gangi á árunum 1998-2002, þá sem tímabundið tilraunaverkefni sem lagðist af vegna skorts á fjárframlögum. Eins og nafnið bendir til var meðferðin í upphafi fyrst og fremst miðuð við karla sem beittu ofbeldi í nánum samböndum. Síðar var það þó ljóst að öll kyn geta beitt öll kyn ofbeldi. Þessar útvíkkuðu forsendur leiddu til þess að nafnið, sem átti svo ágætlega við í upphafi, var orðið villandi. Því var ákveðið að leggja til hliðar hið upprunalega nafn og valið annað sem hefur breiðari skírskotun, „Heimilisfriður“ með undirtitlinum „Meðferðar- og þekkingarmiðstöð um ofbeldi í nánum samböndum.“ Með þessum undirtitli er vísað til þess að auk þess að bjóða gerendum ofbeldis í nánum sambönd upp á meðferð er Heimilisfriði ætlað að miðla fræðslu og þjálfun varðandi ofbeldi í nánum samböndum og afleiðingar þess til fagfólks og almennings. Þessu hlutverki sinna starfsmenn Heimilisfriðar fyrir hina ýmsu hópa víða um land. Það sem var í upphafi tveggja manna hugarfóstur hefur nú vaxið og dafnað og í dag starfa fjórir sálfræðingar og einn fjölskyldumeðferðarfræðingur hjá Heimilisfriði. 

 

Starfsfólk Heimilisfriðar

Andrés Proppé Ragnarsson

sálfræðingur

Jóhanna Dagbjartsdóttir

sálfræðingur

Kristín Tómasdóttir

fjölskyldufræðingur

Mjöll Jónsdóttir

sálfræðingur

Þórunn Eymundardóttir

Cand.psych.

Scroll to Top