Verkefnið

Á vordögum 2006 var á vegum Félagsmálaráðuneytisins endurvakið meðferðartilboð fyrir karla sem beita heimilisofbeldi, „Karlar til ábyrgðar“ (KTÁ). Þetta úrræði var áður í gangi á árunum 1998-2002, þá sem tímabundið tilraunaverkefni sem lagðist af vegna skorts á fjárframlögum. Það eru sömu aðilar og áður sem séð hafa um meðferðina, sálfræðingarnir Einar Gylfi Jónsson og Andrés Ragnarsson. Auk þess hefur Mjöll Jónsdóttir sálfræðingur bæst í hópinn. – Eins og nafnið bendir til var meðferðin fyrst og fremst miðuð við karla sem beita ofbeldi í nánum samböndum og þungamiðja meðferðarinnar að taka ábyrgð á eigin ofbeldishegðun og í framhaldinu að þróa leiðir til að takast á uppbyggilegan hátt við það sem upp kann að koma í samskiptum.

Undanfarin misseri hefur konum sem gerendum og körlum sem þolendum einnig verið boðið upp á aðstoð. Hefur sú þjónusta farið vaxandi, þó hægt fari.  Þessar útvíkkuðu forsendur hafa leitt til þess að nafnið, sem átti svo ágætlega við í upphafi, er nú orðið villandi. Því hefur verið ákveðið að leggja til hliðar hið upprunalega nafn og velja annað sem hefur breiðari skírskotun:  Heimilisfriður, með undirtitlinum „Meðferðar- og þekkingarmiðstöð um ofbeldi í nánum samböndum.“  Með þessum undirtitli er vísað til þess að auk þess að bjóða gerendum og þolendum ofbeldis í nánum sambönd upp á meðferð er Heimilisfriði ætlað að miðla fræðslu og þjálfun varðandi ofbeldi í nánum samböndum og afleiðingar þess til fagfólks og almennings.

Allir sem leita til Heimilisfriðar byrja í einstaklingsviðtölum. Til að byrja með er skjólstæðingnum boðið upp á allt að 4 greiningarviðtöl, þar sem vandinn er metinn og lagt á ráðin um framhaldið. Að því loknu getur verið um að ræða áframhaldandi einstaklingsviðtöl eða hópmeðferð.

Lögð er áhersla á að viðkomandi þiggi aðstoðina af fúsum og frjálsum vilja og sjái sjálfur um að panta sér viðtal. Undantekningar á þessari meginreglu eru t.d. þegar barnaverndaraðilar, félagsþjónusta eða lögregla vísa málum til okkar.

Ekki er boðið upp á hjónameðferð, en mökum er alltaf boðið upp á 2 viðtöl við upphaf og lok meðferðar til að meta öryggi maka og barna. Makar fá skriflega kynningu á meðferðinni og þeim áherslum sem lagðar eru til grundvallar.

Monika Skarphéðinsdóttir sálfræðingur hefur sinnt makaviðtölum síðan 2011.

Meðferðarúrræði á Norðurlandi: Í desember 2011 var sett á fót meðferðarúrræði á vegum Heimilisfriðar á Akureyri, sem ætlað er að þjóna Norðurlandi. Kristján Már Magnússon sálfræðingur annast verkefnið fyrir hönd Heimilisfriðar. Hægt er að hafa beint samband við Kristján í síma 460 9500. Auk þess er hægt að hafa samband við síma Heimilisfriðar 555 3020.

Starfsþjálfun og ráðgjöf: Frá upphafi hefur Heimilisfriður/ KTÁ sótt sér fyrirmynd af starfseminni til Alternativ til Vold í Noregi og er nú meðlimur að regnhlífarsamtökum undir forystu ATV, þar sem fyrir eru meðferðarstöðvar frá Svíþjóð, Danmörku og víðar.

Nánari upplýsingar fást hjá heimilisfridur(hjá)shb9.is